Charles Dickens
Charles Dickens var á sínum tíma talinn með helstu rithöfundum Englendinga og alls hins vestræna heims og er enn í dag talinn til merkustu höfunda sögunnar. Í dramatískum skáldsögum tókst honum að sameina einstaklega áhugaverðar sögufléttur, stórbrotnar persónur, beitta þjóðfélagsádeilu og sýn á tilveruna sem hitti lesendur beint í hjartastað. Með sögum sínum tókst Dickens það sem fæstum höfundum hafði tekist sem var að sameina allar stéttir í lestri. Hann sjálfur hafði mátt lifa tíma og atburði tvenna sem endurspeglast í frábærum samfélagslýsingum hans.
Dickens fæddist 7. febrúar árið 1812 í Portsmouth á suðurströnd Englands. Hann var skírður Charles John Huffam Dickens og var annað af átta börnum foreldra sinna. Faðir hans, John Dickens, starfaði sem skrifstofumaður hjá launadeild flotamálaráðauneytisins. Var hann ósáttur við stöðu sína í lífinu og ól stöðugt þá von í brjósti að verða ríkur. Móðir Charles, Elizabeth Barrow var kennslukona og um tíma skólastýra. Þrátt fyrir stóra drauma og vonir tókst fjölskyldunni samt aldrei að halda fátæktinni í skefjun. Árið 1816 fluttu þau til Clatham í Kent þar sem Charles og systkini hans ólust upp við töluvert frjálsræði og mikil tengsl við náttúruna.
Árið 1822 flutti fjölskyldan til Camten Town, sem var lágstéttarhverfi í London. Á þeim tíma var fjárhagur fjölskyldunnar mjög bágur og átti það ekki síst rætur að rekja til þess að fjölskyldufaðirinn, John Dickens, var farinn að lifa um efni fram. Leiddi það á endanum til þess að hann var sendur í skuldafangelsi árið 1824 þegar Charles var einungis tólf ára gamall. Notaði hann upplifun sína af þessum atburðum síðar er hann skrifaði söguna Little Dorrit (1855-1857).
Við þetta urðu mikili umskipti hjá fjölskyldunni. Charles neyddist til að hætta í skóla og hóf störf í sútunarverksmiðju við ána Thames. Laun hans fyrir þá erfiðu og óþrifalegu vinnu voru 6 shillingar á viku. Dickens minntist þessa tíma alltaf með hryllingi og talaði um að þarna hefði sakleysi æsku hans verið hrifsað burt ótímabært.
Það varð fjölskyldunni til happs á þessum erfiðu tímum að faðir hans erfði dálitla upphæð sem hann gat notað til að borga niður skuldir sínar. Nú gat Charles snúið sér aftur að náminu og hætt að vinna. En það stóð ekki lengi því er hann var 15 ára varð hann aftur að hverfa frá námi og byrja að vinna fyrir sér og fjölskyldunni. Starfaði hann í eitt ár á lögmannsstofu en árið 1828 fékk hann starf sem átti mun betur við hann og hafði mótandi áhrif á allt hans líf. Hann byrjaði að starfa sem hlaupadrengur á fréttablaði og innan árs var hann farinn að skrifa greinar í blaðið. Fékkst hann í fyrstu einkum við að segja fréttir frá dómsmálum en færðist brátt yfir í almenna fréttamennsku. Var hann æ síðan viðloðandi blaðamennsku með einum eða öðrum hætti.
Það er svo árið 1833 sem rithöfundurinn, skáldið, Charles Dickens kveður sér hljóðs en þá byrjar hann að birta smásögur og ritgerðir undir nafninu Boz í tímaritum. Vöktu þessi skrif hans töluverða athygli og þremur árum síðar gaf hann út Pickwick blöðin (1836), sem staðfestu enn frekar að hér fór maður sem kunni til verka og náði til fólks með skrifum sínum.
Sama ár og Pickwick blöðin komu út kvæntist hann Catherine Hogart sem var dóttir vinar hans. Hafa margir ævisöguritarar hans haldið því fram að hann hafi í raun elskað systur hennar Mary meira. Sú flutti inn á þau hjónin en dó ári síðar. Allavega bað Dickens sjálfur um að hann yrði grafinn við hlið Mary þegar hans tími kæmi og alla tíð gekk hann með hring hennar á fingri sínum. Önnur systir Catherine flutti einnig inn á þau hjónin. Sú hét Georgiana og ekki leið á löngu áður en Charles var orðinn ástfanginn af henni. En með konu sinni eignaðist hann tíu börn áður en þau skildu árið 1858. Þá segir sagan að hann hafi átt í ástríðufullu ástarsambandi við leikkonuna Ellen Ternan sem hann kynntist í kringum 1850.
Flestar af sögum hans birtust fyrst í tímaritum, sem framhaldssögur, eins og tíðkaðist í þá daga. Þannig var það t.a.m. með Oliver Twist sem kom út á árunum 1837–39. Naut hún gríðarlegra vinsælda og biðu lesendur spenntir eftir framhaldinu hverju sinni. Nicholas Nickelby skrifaði hann 1838–39, Old Curiosity Shop 1840–41, Barnaby Rudge 1841, A Christmas Carol 1843, The Life and Adventures of Martin Chuzzlewit 1843-1844, Dombey and Son 1846-1848, David Copperfield 1849-1850, Bleak House 1852-1853, Hard Times 1854, Little Dorrit 1855-1857, A Tale of Two Cities 1859, Great Expectations 1860-61 og Our Mutual friend 1864-65.
Allar nutu þessar sögur mikilla vinsælda og Dickens sjálfur varð brátt svo þekktur að allir vissu hver hann var og þekktu hann á götu. Og frægð hans náði langt út fyrir Bretlandsstrendur. Árið 1842 fór Dickens í fyrirlestraferð til Bandaríkjanna og viðtökurnar þar voru með ólíkindum. Vilja margir trúa því að Dickens hafi verið fyrsta stórstjarnan sem sögur fara af þar vestra, slík var múgæsingin.
Á árunum 1844 til 1845 ferðaðist hann töluvert um Evrópu og dvaldi um tíma á Ítalíu, í Sviss og Frakklandi. 1858 til 1868 hélt hann mikið af fyrirlestrum í Bretlandi og einnig fór hann í aðra ferð til Bandaríkjanna.
Á fjórða áratugnum var Dickens mjög virkur í baráttu fyrir alls kyns þjóðfélagslegu réttlæti. Ferðaðist hann víða og hélt fyrirletra, skrifaði stutta bæklinga, bréf og margt fleira sem tengdist þeirri baráttu. Á fimmta áratugnum hóf hann útgáfu á tímaritinu Household World, sem hann jafnframt ritstýrði.
Sjötti áratugurinn var Dickens nokkuð erfiður. Þá missti hann eina dóttur og skildi við konu sína Catherine. Má merkja í sögum hans frá þessum tíma þyngri tón og myrkari viðhorf til samfélagsins og lífsins almennt. Eru þetta sögur eins og Bleak House, Hard Times og Little Dorrit.
Það verður svo aftur viðsnúningur í viðhorfum hans með skáldsögunni A Tale of Two Cities sem kom út árið 1859.
Árið 1865 slasaðist Dickens í lestarslysi sem hann náði sér aldrei almennilega af. Þrátt fyrir það hélt hann áfram að ferðast og halda fyrirlestra vítt og breitt allt fram í andlátið ef svo má segja. Þann 9. júní 1870 fékk hann slag heima hjá sér og lést af völdum þess. Var hann 58 ára gamall. Hann var jarðsettur í Skáldahorninu við dómkirkjuna í Westminster og fylgdu þúsundir þessum ástsæla höfundi til grafar, eins og um þjóðhöfðingja væri að ræða.